Sundæfingar yngri hópa falla niður út vikuna Prentvæn útgáfa
Skrifað af: Ásgeir Ásgeirsson   
Mánudagur, 16. mars 2020 18:56

Sundráð Reykjavíkur (SRR) fundaði fyrr í dag og þar var ákveðið að verða við tilmælum ÍSÍ um takmörkun íþróttaæfinga fram til 23. mars og fella niður sundæfingar yngri hópa út vikuna. Þetta á við um Gullfiska, Bleikjur, Höfrunga og Laxahópa hjá Ægi bæði í Breiðholti og Laugardalslaug. Um helgina verður síðan tekin ákvörðun um framhaldið. Stjórn Ægis mun leita leiða til að bæta sundmönnum upp þetta æfingatap. 

Yfirþjálfari Ægis mun hafa samband við sundmenn í Brons, Silfur og Gullhópum í kvöld og á morgun.

SSÍ hefur þegar tilkynnt um seinkun á Íslandsmeistaramótinu í 50m laug sem nú á að reyna að halda í lok apríl. 

Sundlaugar verða almennt opnar þessa viku og geta allir farið í sund sem vilja innan þeirra fjöldatakmarkana sem laugarnar setja.

Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að fylgjast áfram með fréttum hér á heimasíðunni og á facebook síðum hópanna.

Stjórn og þjálfarar.