Nýtt sundár - skráningar Prentvæn útgáfa
Skrifað af: Ásgeir Ásgeirsson   
Laugardagur, 19. desember 2020 10:59

Kæru sundmenn og aðstandendur sundmanna í Ægi. Eftir erfitt ár sem snertir okkur öll þá sér vonandi fyrir endann á COVID-19 faraldrinum og því ekki seinna vænna en að undirbúa næsta tímabil. Hér fyrir neðan eru upplýsingar frá stjórn Ægis og þjálfurum um komandi tímabil.

  • Gullfiskar. Til að bæta upp að hluta þá tíma sem fallið hafa niður í haust voru Gullfiskar keyrðir til 17. desember. Að auki verður 2 vikum bætt við í janúar þannig að Gullfiskarnir á núverandi námskeiði geta mætt áfram frá 5. janúar til 14. janúar. Nýtt 12 vikna Gullfiskanámskeið hefst síðan í vikunni þar á eftir eða þann 19. janúar og verður keyrt til 8. apríl. Búið er að opna fyrir skráningar á nýja námskeiðið í skráningarkerfi félagsins.
  • Bleikjur. Bleikjur hefja nýtt tímabil þann 4. janúar. Til að bæta upp fyrir tapaðar æfingar í haust hefur verið ákveðið að bjóða Bleikjum að æfa til og með 10. júní. Þessar auka 2 vikur verða mögulega í útilauginni í Breiðholti þar sem sumarnámskeið hefjast í innilauginni í byrjun júní. 
  • Laxar og Höfrungar. Boðið verður upp á auka 2 vikur fyrir Laxa og Höfrunga í júní. Æfingar hefjast 4. janúar og standa til 11. júní. 
  • Brons, Silfur og Gullhópar. Þessir hópar æfa að hluta yfir hátíðarnar og hefja æfingar á nýju ári eftir áætlun þjálfara. 

Þjálfarar munu ráðleggja sundmönnum um mögulegar tilfærslur á milli hópa um áramót.  

Búið er að opna fyrir skráningar í alla flokka en Frístundastyrkir sveitarfélaga verða ekki virkir fyrr en um áramót. Það verður tilkynnt sérstaklega þegar hægt er að skrá með frístundastyrkjum. Tekið er fram að frístundastyrki er ekki hægt að nýta fyrir börn yngri en 6 ára. Því hvetjum við þá foreldra 4-5 ára barna sem vilja skrá börn sín á Gullfiskanámskeið að skrá þau sem fyrst.

Það er von stjórnar og þjálfara að sundmenn haldi áfram að æfa sund þrátt fyrir erfitt ár og styrkja líkama og sál og styðja við félagið. Gerum næsta ár frábært! 

Áfram Ægir!

Stjórn og þjálfarar.